.Jóla hvað.

Ég hata desember. Mér er ekkert sérstaklega vel við jólin og ég þoli ekki áramótin. Ég er svo hamingjusöm og lífsglöð ung stúlka að það ætlar mig lifandi að drepa. Ég skil ekki hvenær ég varð svona neikvæð í garð jólanna því ég var alltaf svo mikið jólabarn. Desemberkvíðinn er orðin svo mikill núna að ég byrja að hafa áhyggjur af þessu máli um miðjan nóvember og með hverju árinu fer þetta versnandi. Með þessu áframhaldi verð ég orðin eins og Trölli sem stal jólunum um þrítugt.Ég hata desember.

Ég flaug á hausinn á leiðinni í vinnuna í gær. Lenti á hnénu og hélt í svona þrjátíu sekúndur að ég hlyti að hafa brotið það þar sem ég fékk hálfgert aðsvif þegar ég reyndi að staulast á fætur. Sviminn og ógleðin gæti líka hafa stafað af því að þegar ég datt nálgaðist mig rauður bíll sem átti í erfiðleikum með að stoppa sökum hálkunnar. Hann náði að stoppa að lokum og bílstjórinn og farþegi hlógu sig máttlaus yfir óförum mínum. Mér finnst þetta ekkert sérstaklega fyndið, sérstaklega ekki þegar eitthvað rekst í hnéð eða eitthvað af hinum sjö marblettunum sem ég er með. Eftir á að hyggja þá hefði ég alveg verið til í að fótbrotna, fá smá frí frá vinnunni í þessu óþolandi jólastress mánuði.

Að lokum verð ég að hrósa VR fyrir auglýsingarnar sem þeir eru að sýna núna. Alltof oft tekur fólk út gremju sína á saklausu afgreiðslufólki og ætla ég rétt að vona að þessar auglýsingar hafi tilætluð áhrif.



Auður Ösp kl.13:36 þann þriðjudagur, nóvember 30, 2004


#





.Kossar og knús.

Ég á bestu vini í heimi. Punktur.



Auður Ösp kl.11:24 þann miðvikudagur, nóvember 24, 2004


#





.Blaður um ekkert.

Hvað er hægt að gera í því þegar maður er alveg með eindæmum skjálfhentur? Er hægt að gera einhverjar styrktaræfingar gegn skjálfta? Ég fengi sko aldrei að vera skurðlæknir með þessar hendur. Ég var nefnilega að reyna að taka nokkrar myndir í gær og þegar að maður notar ekki flass þá er ljósopið eða hvað sem maður vill kalla það opið lengur en venjulega. Til þess að myndin komi vel út þarf maður að halda vélinni kyrr og ég gat það bara engan veginn. Myndirnar urðu allar hreyfðar og ég varð alveg óstjórnlega pirruð. Ég skil ekkert af hverju ég er svona skjálfhent, getur í guðanna bænum einhver komið með líklega skýringu á þessu fyrirbæri áður en ég reiti af mér hárið...

Er á borgarbókasafninu. Langar helst ekki að fara. Langar eiginlega bara að flytja inn. Fá einhverja sponsora og reyna að slá eitthvað met. Lengst búseta á bókasafni eða eitthvað svoleiðis. Pæliði ef maður ætti allar þessar bækur.

Ef einhver vill leika við mig í kvöld bið ég hinn sama að hringja í mig hið fyrsta. Er búin að vera í svo góðum félagsskap í dag að mig þyrstir í meira. Neita að fara heim í moldvörpuholuna. Nei takk!



Auður Ösp kl.17:07 þann þriðjudagur, nóvember 23, 2004


#





.Hvað ef?.

Sambandsfælni. Hræðsla við það að eldast, fullorðnast og taka ábyrgð. Strútasyndromið þar sem hausnum er stungið undir sæng til þess að forðast það að horfast í augu við staðreyndir. Oföndun og hnútar í maga þegar talið berst að íbúðakaupum eða gæludýrahaldi. Allir sem hafa einhvern áhuga eru geðveikir og tilhugsunin um börn veldur uppköstum. Hverjum í andskotanum datt í hug að ég þyrfti að fullorðnast?

Ég berst um eins og fangað dýr í búri. Pabbi, sem líst alls ekki á moldvörpuholuna, talar um 100% íbúðarlán og það strax. Við það eitt fer hjartað mitt að slá hraðar, ég verð rauð á eyrunum og mig byrjar að svima. 40 ára skuldbinding klingir í eyrunum á mér og ég finn í mínum dýpstu hjartarótum að ég er ekki tilbúin fyrir það skref. Spurningin er samt hvort ég verði nokkurn tíma tilbúin? Held ég ekki bara áfram að forðast ábyrgðarskrímslið þangað til utanaðkomandi aðstæður hreinlega hrinda mér fram af klettinum og ég þarf annað hvort að synda eða sökkva?

Hvað ef ég stekk aldrei? Langamma mín lifði í 98 ár án þess að giftast. Er það mín framtíð? Er ég þessi kona á kortinu?



Auður Ösp kl.16:39 þann sunnudagur, nóvember 21, 2004


#





.Moldvarpa tjáir sig um innantómt líf sitt.

Brrr..... mér er ógeðslega kalt. Ég sit hérna í vinnunni í hvorki meira né minna en tveimur ullarpeysum og bol og samt er ég að krókna. Er kalt á eyrunum og puttarnir við það að brotna af og þyki ég samt ekki kulsækin kona. Skelf eins og hrísla í fellibyl og ég get sagt ykkur það að mér er ekkert að hlýna við að tala um það hvað mér er kalt.

Ég tók herbergið mitt alveg í gegn í gær. Sat á fjórum fótum og skrúbbaði alla gólflista og allt saman. Þvoði tvær þvottavélar og þar af eina með rúmfötunum mínum. Ákvað að henda þeim í þurrkarann þar sem þetta eru einu samstæðu rúmfötin sem ég á fyrir báðar sængurnar. Henti bara öllu í 3 kíló þurrkarann, sem er fyrir þá sem ekki vita frekar lítið af þurrkara af vera, og var svo voða hissa þegar að sængurverin voru ekki orðin þurr í gegn tveimur tímum seinna. Ekki nóg með að þau væru hálf rök á köflum heldur var þetta allt saman alveg óendanlega krumpað. Ætlaði ekki að koma koddunum í verin sökum krumpleika. Minnti mig svolítið á þegar ég var í Svíþjóð hjá honum Ella mínum og ætlaði að vera voða góð við hann og þvo fyrir hann. Það fór ekki betur en svo að ég setti allt draslið hans í þurrkarann, gallabuxur og allar græjur, og þau komu öll sérlega þröng tilbaka. Elli var ekki ánægður og sakaði mig enn og aftur um að vera að reyna að eyðileggja líf hans. Ég og þurrkarar sum sé ekki góð blanda.

Mér finnst að ég ætti að vera alveg ógeðslega rík og að ég ætti að hafa manneskju í vinnu við það eitt að skemmta mér. Mér finnst líka að ég ætti að búa ofanjarðar en ekki í litlu moldvörpuholunni minn. Mér finnst líka að ég ætti ekki að þurfa að vinna, sérstaklega ekki á stað eins og kexsmiðjunni og að ég ætti að fara til útlanda að minnsta kosti 12 sinnum á ári. Ef ég get ekki fengið þetta þá finnst mér að ég ætti allavega að hafa eitthvað að gera í kvöld annað en að moldvarpast. Mér leiðist.



Auður Ösp kl.17:36 þann fimmtudagur, nóvember 18, 2004


#





.Kaupóð.

Kaupæði er smitandi. Ef einhver kaupir sér eitthvað tilgangslaust og ónothæft þá verð ég að kaupa svoleiðis líka. Þess vegna ætla ég að kaupa mér seríu sem blikkar á milljón mismunandi vegu án þess að hafa nokkra þörf fyrir hana. Það er stelpunni sem er að vinna með mér að kenna. Já, ég kenni henni um.



Auður Ösp kl.18:15 þann miðvikudagur, nóvember 17, 2004


#





.Illgjarnir veðurguðir og Reykjavík.

Hvað er málið með þennan snjó? Á hverju einasta ári misskilja veðurguðirnir algjörlega bænir mannanna um hvít jól. Ég er farin að aðhyllast því að fyrrnenfdir veðurguðir fylgi einhverju öðru tímatali en við eða þá að þeir séu hreinlega alveg yfirgegngilega illgjarnir. Þetta er eins á hverju ári. Um miðjan nóvember byrjar að kyngja niður snjó og borgin fellur undir silkimjúka hvíta ábreiðu eins og á svipstundu. Trén sligast undan þyngslum snjósins en tekst samt að gera mann næstum grátklökkan yfir því hvað þeim tekst að sligast fallega. Ótímabærar jólaskreytingar borgarinnar verða allt í einu falleg viðbót í vetrarríkið og allt er svo yndislegt. Án þess að maður fá nokkru ráðið um það hellist jólaskapið yfir mann og helst langar mann bara fara heim og baka smákökur, föndra jólakort og draga fram jólaborðann til þess að setja í hárið. Hummandi jólasöngva valhoppar maður um bæinn þangað til um miðjan desember þegar að jólastressið nær hámarki og maður vill helst ekki heyra á þessi helvítis jól minnst meira. Þá eiga þessir blessuðu veðurguðir það til að taka snjóinn, einmitt þegar maður þarf mest á honum að halda. Svo halda þeir rauðu fram yfir aðfangadag þannig að aðventuljósin stingi sem mest í stúf við gulgrænt grasið og gráar göturnar fyrir utan gluggann og oftar en ekki byrjar svo að snjóa aftur þriðja í jólum eða eitthvað álíka. Svona er þetta á hverju ári. Alveg hreint merkilegur fjandi.

Ég er að gera mitt best við að berja jólapúkana af mér en það var mjög erfitt þegar ég keyrði í gula limmanum í gegnum lækjargötuna í gær. Þetta var eins og leikmynd úr breskri bíómynd í anda Bridget Jones og Love Actually og var ég eiginlega bara hissa á að reka ekki augun í Hugh Grant eða Colin Firth á vappi. Mér finnst Reykjavík eitthvað svo agalega rómantísk þessa dagana að ég á bara erfitt með mig. Finnst eins og ég eigi að vera persóna úr Bridget Jones eða Love Actually með bleikan trefil og heklaða húfu, hönd í hönd með Colin Firth eða Hugh Grant, svífandi á bleiku ástarskýi eftir Tjarnargötunni. Kannski að ég hafi horft á of margar myndir eins og Love Actually og Bridget Jones.



Auður Ösp kl.13:37 þann


#





.SNILLINGAR.

Fyrir þá sem ekki vita þá eru Auður Ösp og Ásta Þöll algjörir djöfulsins snillingar. Hér er sönnunin. Þetta tók ekki nema eina kvöldstund, slatta af Coca-Cola, nokkur vínber og poka af lúxus salthnetublöndu frá Góðu fæði í Kópavoginum. Fokking snillingar!



Auður Ösp kl.02:11 þann þriðjudagur, nóvember 16, 2004


#





.Helgin.

Ég var góða barnið um helgina. Ég leigði mér pólitískt afþreyingarefni, Farenheit 9/11, á föstudagskvöldið. Sat svo bálreið með kók í annarri og örbylgjupopp í hinni og óskaði hálvitanum í húsinu hvíta hægum og kvalarfullum dauða. Eftir myndina íhugaði ég að fara í skæruhernað gegn ríkisstjórninni vegna þátttöku okkar friðelskandi lands í olíukrossferð Bush feðga. Ég sá mig fyrir mér, alla svartklædda og með lambhúshettu á hausnum, hengja upp skærbleik árróðursspjöld með sniðugum slagorðum ættuð frá mér snjallara fólki. TRUB ÐEM HSUB. Ákvað svo að kannski væri orku minni ekki beint að réttu málefni og ákvað að skipta út spilltum amerískum olíujöfrum fyrir spillta íslenka olíujöfra. Hugsaði með mér að það væri kannski nóg af fólki að ræða olíumálin þarna úti og að ég ætti heldur að beita mér fyrir friði á jörð og náungakærleik. Hannaði í huganum heila röð af fallegum póstkortum með enn fallegri boðskap sem ég ætlaði að lauma í póstkorta standana á kaffihúsum borgarinnar. Steinsofnaði svo út frá verðlaunaafhendingunni á Bessastöðum þar sem forsetinn var um það bil að veita mér nýja viðurkenningu fyrir störf mín í þágu friðar og réttlætis.

Aldrei þessu vant þá gerði ég ekkert af mér um helgina. Ég tilkynnti engin skot, ég drakk ekki einn einasta bjór og hirti engar regnhlífar á förnum vegi. Ég var ekki leiðinleg við neina vinnufélaga, ég sendi engin sms sem ég sá eftir og ég gaf ekki einni einustu manneskju fingurinn. Ég horfði á video, skrapp í heimsókn og labbaði edrú heim úr bænum á laugardaginn eftir kjúklinga burrito og magaverki sem því fylgdi. Reyndar þá held ég að ég hafi móðgað undarlegan mann frá Kenýa sem var ansi aðgangsharður við konuna mína en ég sagði ekkert sem ég myndi ekki endurtaka og hann átti það fyllilega skilið. Hitti meira að segja fílamanninn og það var ekki vitundarögn vandræðalegt. Frekar eðlileg helgi bara þar sem ég hagaði mér afar vel að eigin mati og skemmti mér hið besta. Undarleg tilfinning að vera ekki þunn í morgun. Kem pottþétt til með að prófa það aftur. Og aftur jafnvel.



Auður Ösp kl.23:10 þann sunnudagur, nóvember 14, 2004


#





.Hóst Hóst.

Nei, ég er ekki dauð. Bara veik. Ekki búin að fara til vinnu síðan á mánudag. Ekki með netið heima. Er að stelast núna á meðan að systur mínar bera út fréttablaðið. Mamma gamla væri ekki ánægð ef hún vissi þetta, enda náði símreikningurinn nýjum hæðum hér í síðasta mánuði. Ekki mikið að frétta, búin að bóka Hilton, sé fram á mikinn lúxus um áramótin. Hefðum átt að fljúga Saga class. Nei, bara spaug.

Vonast til að komast í vinnu á morgun, þótt reyndar að ég eigi alls ekkert að vera að vinna þá. Er mjög einmana, sakna fólks. Allir að hringja í veika pésann. Já og mamma og Noah fóru saman í Kringluna á miðvikudaginn??? Que pasa segi ég nú bara. Hef sjálf ekki heyrt í honum í tvær vikur. Sama hvað ég reyni þá finnst mér þetta mál allt hið furðulegasta. Mömmu sárnar að mér finnist svo. Heldur að þetta sé einhver persónuleg árás á hana. Sem það er ekki. Meira svona ég ekki að meika að vinur minn og mamma séu einhverjar vinkonur. Skrýtna fólk. Hóst.



Auður Ösp kl.08:05 þann föstudagur, nóvember 12, 2004


#





.Sjálfsagi, hvað er það?.

Það tilkynnist hér með að ég, Auður Asperlund Lange (ég héti pottþétt eitthvað svoleiðis ef að fjölskyldan hans pabba væri meira í tengslum við sína dönsku ættfeður), hef ekki snefil af sjálfstjórn. Ætla ekkert að fara neitt nánar út í þá sálma, það þekkja allir mín margfrægu djammpásur sem fara í hundana. Finnst samt skemmtilegt að segja frá því að ég hitti Jón Stefán áðan, sem ég hitti einmitt á Celtic á laugardaginn, og hann virðist hafa verið í verra ástandi en ég. Allavega kom hann af fjöllum þegar ég sagðist hafa komið með þeim á Grand Rokk en það var einmitt ég sem heimtaði að þeir kumpánar kæmu með mér og hann mótmælti hástöfum. Annars þá var ég að fara í anúrakkinn minn í morgun á leiðinni í vinnuna og sá þá allt í einu rauðköflótta regnhlíf á snaganum undir anúrakknum. Kannaðist ekkert við að eiga hana, hef aldrei átt rauðköflótta regnhlíf. Mundi svo eftir að hafa fundið hana á Laugarveginum einhvers staðar og ákveðið að ég yrði að eiga hana. Merkilegt að ég skyldi hafa haft rænu á að hengja hana upp miðað við ástandið á bænum þegar heim var komið. Svei mér þá, ég er snyrtilegri drukkin heldur en edrú.

Ég er í fríi á morgun. Allir sem vilja skemmta mér hafi samband við mig í síma. Eða með banki á glugga, sértu íbúi þynnkukofans. Húrra húrra, ég elska annan hvorn þriðjudag.



Auður Ösp kl.18:02 þann mánudagur, nóvember 08, 2004


#





.Segðu mér satt.

Í gær tilkynnti mér maður, sem í sínum heimabæ þykir óþarflega hreinskilinn á köflum, að hann kæmist ekki með tærnar þar sem ég er með hælana í hreinskilninni. Hann sagðist aldrei hafa kynnst öðru eins og bætti því við að ég hafi meira að segja einu sinni komið honum til þess að gráta. Ég minnist þess nú ekki að ég hafi grætt þennan tiltekna mann, kannski aðra menn en ekki þennan, og fannst mér þetta full dramatískar yfirlýsingar hjá honum. Eða hvað?

Eftir að hafa hugsað málið aðeins betur þá verður það nú bara að segjast að ég á það til að vera heldur beinskeytt. Sérstaklega í samkiptum mínum við hitt kynið. Ég veit ekki af hverju ég er svona, held bara að ég sé komin með upp í kok af þessum leikjum sem viðgangast á kjötmarkaðnum góða. Ég er samt ekkert sammála alltaf þessum tilhneigingum mínum til þess að segja hlutina hreint út. Fannst til dæmis algjör óþarfi hjá mér að segja manninum sem ég er búin að vera svolítið skotin í undanfarnar vikur frá því í gær. Við sátum sallíróleg á Nelly's, hann blá edrú og ég ekki jafnedrú, og ekkert að gerast. Fyrirgefðu væni, ég verð að segja þér svolítið sem á eftir að láta mig líta eilítið kjánalega út. Þetta er alls ekki mér að kenna og ég vildi að ég gæti sleppt þessu alveg en ég er bara soldið skotin í þér. Já, frekar skotin bara. Hann horfði á mig með undrunarsvip en sagði ekki neitt og hélt svo áfram að stara út í tómið. Já frekar skotin bara.

Stundum þá bara verð ég að deila tilfinningum mínum með fólki. Mér fannst hann hafa rétt á að vita þetta. Svo var líka einhver stelpa alveg búin að traðka á tilfinningum hans fyrr um kvöldið og ég hélt kannski að hann yrði ánægður að heyra að þrátt fyrir að hún vildi hann ekki þá væru nú fleiri fiskar í sjónum. Var ekkert að ætlast til neinna viðbragða frá honum, hentar mér frekar vel bara að vera skotin í honum og að það sé ekki endurgoldið. Hefði held ég bara fengið taugaáfall ef hann hefði sagt mér að hann væri einmitt alveg bálskotinn í mér. Má kannski búast við bleikum fíl í herberginu næst þegar ég hitti hann en það verður bara að hafa það.

Þannig að það má vera að ég sé of hreinskilin. Ég bið hér með alla þá karlmenn sem ég hef grætt með hvössum orðum afsökunar. Ég skal gera mitt besta í að bíta í tunguna en þið verðið samt bara að sætta ykkur við það að ég tilkynni skot og annað. Ég get nú ekki alveg umturnað sjálfri mér.

P.S. Ég er með bitfar á handarbakinu eftir einhvern mann sem beit mig á Nellys. Hvað er málið með að bíta fólk bara. Ég ætti kannski að panta eitt stykki stífkrampasprautu. Eða er það bara ef maður er bitinn af hundi?

Þóra "Björk" sástu hvernig mér tókst að lauma bleikum fílum inn í þessa færslu, bara fyrir þig?



Auður Ösp kl.15:05 þann sunnudagur, nóvember 07, 2004


#





.London Calling.

Húrra húrra!!! Í gær tókum við móðir mín þá ákvörðun endanlega að eyða áramótunum þetta árið í hinni undursamlegu Lundúnaborg. Munum við yfirgefa klakann þann 29. desember og snúa aftur 5. janúar. Það er að segja ef við hittum ekki bara einhverja moldríka iðnjöfra sem vilja endilega bjóða okkur í heimsreisu. Þá gæti heimkomu okkar seinkað. Er bara planið að slaka á í heimsborginni, skreppa á Tate og drekka kókó í sóhó. Jú svo ætlar móðir mín að versla. Mikið. Ekki ég samt. Mun ekki eiga fyrir öðru en mat því það er víst ekki hægt að bjóða nærri fimmtugri móður upp á að gista á hosteli og þarf ég því að punga út fúlgum fyrir hóteli. Það verður samt bara skemmtileg tilbreyting, tala nú ekki um eftir bakpokaævintýrið mitt í sumar. Ég er að reyna að fá kellu til þess að taka smá þema með mér á gamlárs í kjólum og fíneríi. Ég og mamma í þema partýi í London, í gala kjólum með kórónur, hversu skemmtilega súrt væri það nú. Ohh hlakka geðveikt til.




Auður Ösp kl.13:36 þann laugardagur, nóvember 06, 2004


#





.Bólusetningar.

Ég á vin sem mér finnst alveg ofsalega sætur. Kannski er það ekki réttnefni að kalla hann vin minn þar sem ég kann ekki einu sinni að stafsetja nafnið hans en við erum allavega svona á vinalegu nótunum. Hann lítur samt öðruvísi á okkar samband en ég. Hann heldur nefnilega að hann elski mig. Það er reyndar jafnlíklegt að hann haldi bara að það sé það sem ég vilji heyra þrátt fyrir að ég hafi margsinnis sagt honum að hætta þessari vitleysu. Ég trúi nefnilega staðfastlega að þessi þrjú orð, ég elska þig, eigi bara að nota þegar maður meinar það af öllu hjarta. Ég hef ástæður til þess að efast um að hann meini það af öllu hjarta, ein af þeim sú að þrátt fyrir að vera í nokkuð stöðugu sambandi við hann í gegnum síma þá hef ég bara hitt kauða örfáum sinnum. Alveg pottþétt of sjaldan til þess að að það sé einhver ást í spilinu. Það breytir því ekki að hann sendir mér ástar- og saknaðarkveðjur nokkuð reglulega og þykist mjög móðgaður þegar ég skamma hann fyrir það.

Ég tók þá ákvörðun fyrir nokkru að þrátt fyrir óneitanleg huggulegheit hans, og staðreyndina að hann er hærri en einn og sjötíu, þá er engin ást í spilunum með þessum manni. Ég sendi honum meira að segja nokkuð ákveðin skilaboð fyrir þó nokkru síðan þar sem ég lýsti því yfir að ég mætti ekki vera að þessari vitleysu og bað hann vinsamlegast vel að lifa. Bætti því þó við að mér þætti hann samt sætur og soldið sniðugur. Hann svaraði mér orðrétt: Ok, ég skil. Þú líka sætur.

Eins og glöggir lesendur hafa kannski áttað sig á þá er umræddur sætilíus af erlendu bergi brotinn og á hann oft í erfiðleikum með íslenskuna. Menningarlegur munur og trúarbrögð þessa manns er einmitt helsta ástæðan fyrir því að ég batt enda á stutt kynni okkar. Það og ég var svolítið hrædd við þessar endalausu ástarjátningar. Ég lét höfuðið ráða að þessu sinni og var fullviss um að ég hefði tekið rétta ákvörðun. Þetta hefði aldrei gengið. Það er þangað til ég fékk mér í glas og opnaði þar með fyrir þetta mál aftur. Guð hvað ég vildi að maður gæti bara fengið einhverja bólusetningu gegn karlmönnum sem gerði það að verkum að maður væri bara gjörsamlega kynkaldur og léti sæta stráka ekki hafa áhrif á sig sama hvað. Það væri draumur í dós og ég veit að ég myndi þokkalega notfæra mér slíkt. Nefnilega þá fær maður stundum þá flugu í hausinn þegar maður er sérstaklega einmana, eða sérstaklega drukkin, að maður hafi kannski gert mistök. Þar koma svo verkfæri djöfulsins, gsm símar, til sögu og maður sendir hið fræga tóma skilaboð sem Hlíf er búin að gera ódauðlegt. Áður en maður veit af er maður komin í smáskilaboða hringavitleysuna aftur og allt í einu er maður orðin elska mí á ný og farin að svara undarlegum símtölum frá viðkomandi í vinnunni.

Þannig að núna sit ég uppi með mann sem ég veit að er rangur fyrir mig á allan hátt og er búin að spila megirðu vel lifa spjaldinu út, augljóslega allt of snemma. Það kannski sem er verst við þetta mál er að mér líkar mjög vel við hann og finnst hann eins og hefur komið fram ósköp myndarlegur. Eftir að hafa reynt að stauta mig fram úr skilaboðum sem oft eru á fjórum mismunandi tungumálum og afar skondin þá getur mér ekki annað en þótt vænt um þennan vitleysing. Hvernig er annað hægt eftir þú líka sætur?

Ég veit svo sem ekki af hverju ég er að deila þessu með ykkur. Kannski vantar mig að þið minnið mig á af hverju það er ekki sniðugt að deita menn eins og hann? Kannski er ég orðin svo gjörsamlega úrkula vonar að nokkur maður muni nokkurn tíma þora að tækla þennan furðufugl sem ég er að ég hreinlega neita að losa mig við mann sem heldur því fram í tíma og ótíma að hann sakni mín og elski? Já ég veit, ég las þessa síðustu setningu líka. Ég verð að losa mig við hann. Þetta er bara enn eitt dæmi þess að höfuðið og hjartað eru ekki alltaf sammála. Kannski að einhver annar hluti líkamans sé að reyna að hrifsa stjórnina af bæði hjartanu og hausnum? Já svei mér þá, svarið er augljóst. Bólusetning er málið.



Auður Ösp kl.11:17 þann fimmtudagur, nóvember 04, 2004


#





.Reiður Pési.

Andskotinn hirði Blogger og alla hans vini... HNUSS

Já og BURT MEÐ BUSH!!!



Auður Ösp kl.16:55 þann þriðjudagur, nóvember 02, 2004


#





.Nefháraklippur.

Það er ótrúlegt hversu margir karlmenn eru að kaupa sér nefháraklippur þessa dagana. Það er eins og það sé ný tískubóla í gangi hjá þeim og allt í einu hlaupa allir til og kaupa klippur. Eitthvað svona svipað dæmi og þegar að allt í einu varstu ekki kona með konum nema þú fengir þér brasilískt vax. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að nefhár væri svona vaxandi vandamál meðal karlmanna í þjóðfélaginu. Það góða við þetta er reyndar að karlmenn eiga miklu auðveldara með að afgreiða svona vandamál en konur. Þeir eru með frumskóg í nösunum og þá fara þeir bara og kaupa sér þar til gerð tól og kippa vandanum í lag. Ágætis afsökun til þess að kaupa sér fleiri raftæki. Konur myndu ekki svona auðveldlega arka inn í næstu raftækjaverslun og kaupa sér nefháraklippur. Þær myndu heldur sitja heima með plokkara og naglaklippur. Jah, eða kannski skæri. Reyndar þá eru nefhár eftir því sem ég best veit ekkert agalega algengt vandamál á meðal kvenna, kannski að þær fáu sem þarfnast slíkra tækja séu einmitt sérstaklega feimnar af þeim sökum.

Ætli næsta sem gerist í þessu nefhára máli að þeir hætti að klippa þau? Safni þeim kannski í fléttu og liti þau bleik? Nei maður veit aldrei, það er ótrúlegasti fjandi sem kemst í tísku í þessum heimi.



Auður Ösp kl.16:46 þann mánudagur, nóvember 01, 2004


#









.Daz Gebbz. .Ázta. .Early. .Áza. .Znóra. .Cliff. .Ziggy.


  • mars 2003
  • apríl 2003
  • maí 2003
  • júní 2003
  • júlí 2003
  • ágúst 2003
  • september 2003
  • október 2003
  • nóvember 2003
  • desember 2003
  • janúar 2004
  • febrúar 2004
  • mars 2004
  • apríl 2004
  • maí 2004
  • júlí 2004
  • október 2004
  • nóvember 2004
  • desember 2004
  • janúar 2005
  • febrúar 2005
  • maí 2005
  • ágúst 2005
  • mars 2007