.Úbbs.

Vá gleymdi næstum að minnast á soldið. Ég er alveg að verða heimsfrægur bloggari. Fyrir enska bloggið mitt sko. Þótt það sé dautt. Er samt í samningaviðræðum við sjálfa mig um hvort ég eigi að endurvekja það í tilefni þess að ég er að verða heimsfræg. Ég fékk líka bón um að leggja öðrum bloggara lið á hans bloggi og ákvað að verða við því. Læt linkinn fljóta hérna um leið og ég er búin að posta einhverju þar. En ekki gleyma því að ég er að verða heimsfræg. Milljónir manna munu sjá andlitið á mér. Ok, allavega nokkrir tugir þúsunda. Ég sagði ykkur þetta, ég mun sigra heiminn. Meira um það þegar ég er formlega orðin fræg.



Auður Ösp kl.13:54 þann föstudagur, október 29, 2004


#





.Slátur og Sviðakjammar.

Í fyrradag bauð móðir mín blessunin tveimur af títtræddum Bandaríkjamönnunum í mat til sín. Mér var víst boðið líka enda þurfti einhvern til þess að leiðbeina mönnunum á fund móður minnar og túlka svo það sem fram færi. Þetta voru sem sé þeir Noah og Zach sem komu í matinn og bar móðir mín á borð fyrir þá þjóðlegar kræsingar í formi sláturs og sviðakjamma. Þeir sem þekkja Noah vita hversu stór og mikill hann er og þeir sem þekkja hann enn betur þekkja stórkallalegt látbragð hans. Á leiðinni í strætó spurði ég þá hvort þeir væru nokkuð hræddir og svöruðu þeir báðir neitandi með hneykslunartón í röddinni.

Við komum heim til mömmu þar sem lagt hafði verið á borð og allt var að verða tilbúið. Noah hafði fengið boð í þennan kvöldverð löngu áður en hann kom til Íslands en Zach hafði meira bara svona fengið að fljóta með þar sem mér finnst hann vænsta grey og hélt það yrði einfaldara að hafa tvo kana í mat en einn. Það er skemmst frá því að segja að vinur minn stóri með örkina var ekki hrifinn af slátrinu. Hann setti upp sama svip og ég notaði í gamla daga þegar að móðir mín bar fyrir mig soðna ýsu. Hann fetti upp á nefið og plokkaði í blóðmörina og ranghvolfdi augunum þegar hann smakkaði sviðin. Þetta gaf mér alveg nýja sýn á þennan mann. Ég minnist þess þegar mér var boðið að borða hjá fólkinu sem ég gisti hjá í Zadar í Króatíu. Þau buðu mér lifur sem er eitthvað það viðbjóðslegasta sem ég veit og heimabruggað eplavín sem ég þurfti að þynna með vatni en ég borðaði samt hvern einasta bita á disknum mínum og drakk hvern einasta dropa úr glasinu. Manni þarf ekki að finnast þjóðlegir réttir góðir og því síður að klára allt sem er sett fyrir framan mann en mér fannst alveg sérstaklega fyndið að sjá hann haga sér eins og óþekkur krakkaormur sem neitar að borða matinn sinn. Zach aftur á móti borðaði allt og hældi svo matseldinni þótt það væri augljóst að honum fyndist þetta ekkert of gott. Hann fékk sér samt aftur til þess að smakka mörina sykraða og kláraði annan skammtinn líka. Meiri kellinginn þessi maður.

Mamma var nú samt ekkert móðguð enda veit hún að slátur er ekki allra. Hún tilkynnti mér það þó að hún hyggst aldrei bjóða erlendum vinum mínum í slátur aftur, hún er tilbúin til þess að athuga með íslenska vini mína en enga fleiri útlendinga. Frekar fyndið kvöld.





Auður Ösp kl.13:38 þann fimmtudagur, október 28, 2004


#





.Auður- The Movie.

Ég var að hugsa í morgun að ef líf mitt væri bíómynd væri rosalega erfitt að skilgreina hvers konar bíómynd það væri. Á köflum er það grátbrosleg þroskasaga ungrar stúlku og myndi eflaust falla í drama flokkinn en á sama tíma er það eins og léleg amerísk B mynd um ástsjúka unglinga og vandræðagang þeirra í makaleitinni. Ég verð að segja að ég er ekkert nógu sátt við þetta. Ég vil heldur vera epískt stórvirki um frábæran einstakling sem rís upp gegn því illa í heiminum og breytir honum til hins betra en að vera einhver American Pie eftirlíking.

Segjum sem svo að líf mitt yrði gert ódauðlegt í bíómynd þá myndi ég ímynda mér að það yrði gert í hráum og ruglingslegum heimildamyndarstíl. Brot úr mínu lífshlaupi sem myndu skoppa fram á sjónarsviðið án nokkurar tenginar við tíma og rúm. Eina mínútuna væri ég að detta niður tröppurnar í kvennaklefanum í Sundhöll Reykjavíkur 10 ára gömul og þá næstu lægi ég hálfmeðvitundarlaus á dyramottu á Spáni að bölava drykkjudauðum vinkonum mínum. Þetta væru meira svona minningarbrot frekar en heilsteypt saga með byrjun og endi. Það er lang rökréttast því mér finnst ég oft sjálf ekki lifa í tímaröð. Líf mitt er frekar röð atvika en saga með byrjun og endi. Glundroði í tilfinningalegri þeysireið.

Ég hugsa að stærsta vandamálið væri að velja réttu tónlistina fyrir myndina. Reyndar færi það svolítið eftir því hvort markmiðið væri að endurspegla mig sem manneskju með því að spila tónlist sem hefur þýðingu fyrir mig eða hvort að ætti að undristrika það sem væri að gerast. Tónlistarsmekkur minn spannar þvílíkt magn af alls kyns stefnum að það væri erfitt að velja mitt uppáhald. Tilhneiging mín til þess að neita að skilgreina mig og mitt myndi líka skapa vandamál. Þannig get ég ekki ákveðið hvaða stjórnmálaflokk ég styð, hvaða áhugamál ég hef eða hvað er uppáhalds tónlistin mín. Ef ég skilgreini þessa hluti um of festist ég í viðjum þeirra og finnst ég vera að svíkja málstaðinn þegar ég vel hluti sem falla utan skilgreiningarinnar. Þar af leiðandi held ég að farsælast væri að velja tónlist sem ætti að byggja upp stemmningu, jafnvel bara tónlist sérstaklega samda fyrir myndina. Svona eins og Slowblow gerði fyrir Nóa Albínóa.

Þá er bara stóra spurningin, hverjir væru í aðalhlutverkum?



Auður Ösp kl.13:38 þann miðvikudagur, október 27, 2004


#





.Svengd.

Það er skrýtið þegar að maður er búin að neita líkama sínum um staðgóða næringu í lengri tíma hvernig allt verður ofsalega erfitt. Ekki nóg með að það sé varla orka eftir til þess að halda höfðinu uppi heldur lendir maður í nokkurs konar geðlægð og finnst allt ómögulegt. Eftir því sem maður verður svengri finnur maður minna fyrir svengdinni. Í staðinn verður erfitt að klæða sig á morgnana og enn erfiðara að komast í gegnum daginn og á þann stað þar sem maður getur skriðið upp í rúm aftur. Í stað hungurverkja koma hausverkur og svimi og sjónin fer að stríða manni. Þegar að maður ekki borðar vill það líka fara svo að maður drekkur ekki nóg. Þá bætist við vökvaskortur ofan á alla hina fylgifiska fátæktar og heimsku og maður situr uppi með sandpappírs varir og bauga niður á höku. Maður sefur í 10 tíma á sólarhring og skilur svo ekki af hverju maður er þreyttur eða hvaðan þessir fyrrnefndu baugar koma. Einföldustu reikningsdæmi verða flókin og maður urrar á fólkið í kringum sig sem hefur ekkert af sér gert annað en að vera þarna. Svo loksins þegar að maður kemst í feitt og fær sér að borða er maginn orðinn lítill og bitinn veldur manni óþægindum. Maður veltir fyrir sér hvort verra sé að vera óþægilega svangur eða óþægilega saddur og borðar meira af skyldurækni en ánægju. Inn á milli fær maður sér svo í hægri tánna og skilur ekkert í því hvernig mismikið magn af áfengi getur breytt manni í ófreskju sem á ekkert skylt við þá manneskju sem maður hefur að geyma. Manni finnst eins og kílóin ættu nú að fjúka þar sem næringunni er ábótavant en raunveruleikinn er ekki svo góður. Líkaminn hægir á brennslunni og passar upp á bumbuna ef ske kynni að hún hætti algjörlega að fá eitthvað ofan í sig. Þrátt fyrir það er maður komin í innsta gat á beltinu sem veitir manni skammvinna ánægju því maður veit að það kemur allt aftur eftir næsta útborgunardag. Neglurnar brotna, húðin verður gráleit og ómöguleg. Lífið verður gráleitt og ómögulegt.

Í dag get ég tekið gleði mína á ný. Ég fæ útborgað. Ég get fyllt minn tóma ísskáp og skipt úr örbylgjupoppinu í betra eldsneyti. Misgjörðir ófreskjunnar verð ég að þurrka út úr minninu og reyna að muna að ég er góð manneskja. Ég ætla aldrei að leyfa mér að koma mér í þessa stöðu aftur og ég get ekki annað en vonað að ófarir mínar í fjármálum nú komi mér til góða seinna. Barnaleg röksemdarfærsla sem hefur engin áhrif. Ég er allavega ekki svöng lengur

PS. Fékk lánaðan Her Majesty með The Decemberists hjá Bill einum af könunum á gamla um helgina. Er búin að vera með hann á í vinnunni og er ótrúlega sátt við þennan disk. Fékk einmitt Transatlanticism með Death Cab for Cutie hjá honum um daginn sem er snilldin ein. Flott að vera búin að ná sér í svona tónlistardíler og allt sem ég þarf að gera í staðinn er að lána honum eina dvd hér og þar. Góður díll það.



Auður Ösp kl.13:35 þann mánudagur, október 25, 2004


#





.Rosalegt.

Ég fór í afmælisboð í gær hjá honum Zach en hann er einmitt nýja gæludýr okkar Þóru. Það var alveg hreint ágætt bara fyrir utan það að það var hálft partýið að reyna að koma mér saman við sæta strákinn frá Bratislava sem ég hef nokkrum sinnum minnst á. Á meðan ég man, þá var ég ekki viss hvort að hann væri nokkuð sætur þar sem ég mundi ekki svo glöggt eftir honum en núna get ég svo sannarlega vottað um að maðurinn er AGALEGA sætur. En nóg um það, þegar að 14 manns eru að reyna að leika hjúskaparmiðlara þá vill það oft fara svo að þau sem eiga að ná saman enda eins langt í burtu hvort frá öðru og unnt er. Ég nældi mér ekki í mann frá Slóvakíu í gær.

Þannig að það voru ég og Þóra, tvær stelpur frá Selfossi eða eitthvað og heill hellingur af ameríkönum, kanadabúum og áströlum, plús einn frá Bratislava, sem örkuðum í bæinn í fimbulkuldanum í Reykjavík í gær. Við fórum á Nelly's og þar byrjuðu vofur liðins tíma að ofsækja mig. Fyrst ber að nefna ónefndan síðhærðan Finna sem kannaðist ekkert við að þekkja mig þegar ég sagði hæ við hann. Hann er kannski ennþá móðgaður yfir því að ég skyldi ekki falla flöt fyrir honum þegar við týndumst í Þingholtunum um daginn. Ég skammaði hann heilmikið fyrir þennan argasta dónaskap og sagði honum að hér eftir myndi hann sko segja hæ tilbaka þegar að mér þóknaðist að heilsa honum. Kandídat númer eitt birtist líka þarna eins og skrattinn úr sauðalæknum og baðst afsökunar á framferði sínu í samskiptum sínum við mig. Það var ágætt að tala við hann og get ég með gleði sagt að hann er ekki skotin í mér lengur. Á Nelly's gerðum við Zach með okkur veðmál og er skemmst frá því að segja að ég vann þetta veðmál. Húrra matur fyrir mig á Ruby Tuesdays í kvöld

Frá Nelly's fórum við á Celtic og þar ákvað kandídat númer tvö að láta sjá sig bara svona úr því að hinn hafði verið á Nelly's. Hann var ekki alveg jafnkátur og númer 1 og skammaði mig heilmikið fyrir að vera leiðinleg. Fyrirgefðu, herra númer tvö, ef þér finnst ég leiðinleg þá máttu bara eiga þig. Ég hitti líka vinnufélaga sem hélt einhvern veginn að ég væri að reyna við sig og tilkynnti mér það með látum að hann væri þarna með kærustunni sinni. Viðkvæmir þessir karlmenn, maður má ekki tala við þá án þess að maður sé að reyna við þá. Ég dró svo afmælisbarnið og Brendan, ástralskan kærasta íbúa gamla garðs, með mér á allar búllur bæjarins. Enduðum við á Glaumbar en þar hitti ég einmitt búálfinn. Hvað er málið, er maður hvergi óhultur? Á dansgólfinu á Glaumbar vorum við eitthvað að tjútta þegar að upp að mér kemur rosalega ljóshærð fertug kona og fór hún að týna af mér spjarinrnar. Hún tók af mér trefilinn, renndi niður anúrakknum mínum, renndi niður peysunni minni og stakk svo nefinu á milli brjóstanna á mér. Ég get svo svarið það, ég var hreinlega of hissa til þess að geta eitthvað gert í þessu. Svo æpti hún woha! og fór.

Hérna sit ég svo í vinnunni og er eiginlega of þunn eða bara drukkin til þess að vera hérna á meðan að mamma og Noah eru einhvers staðar saman að fá sér kaffi. Það að vinir mínir séu að fá sér kaffi með mömmu er bara of furðulegt og sérstaklega þegar það er Noah. Úff, the world is spinning



Auður Ösp kl.13:00 þann sunnudagur, október 24, 2004


#





.Upprisa Sauðsins.

Svo ég vitni í hana Hlíbbu litlu þegar að hún komst að því að Luca var ekki dáinn í Kongó eða hvar sem hann var nú: Upprisinn er hann, húrra húrra. Hann lifir, hann lifir, hann lifir enn.

Já gott fólk, Sauðurinn lifir. Eftir að hafa drepið enska bloggið mitt, sem var einmitt ástæðan fyrir dauða þessa, er ég kvalin búin að halda mér frá lyklaborðinu. Þessi ákvörðun mín um að hætta að blogga var eflaust sú versta sem ég hef tekið og skil ég bara ekkert hvað ég var að hugsa. Þar af leiðandi tek ég mér hér með það bessaleyfi að gefa blogginu mínu lifnipillu og kem nú fersk til leiks í bloggheimi okkar vinkvenna. Eftir dauða pésans fékk ég meðal annars kvartanir frá Gerði sem neyddist nú til þess að einbeita sér að náminu í tímum í stað þess að lesa daglegar hrakfarasögur af undirritaðri. Ég bið þig hér með innilega afsökunar á þessu framferði mínu og lofa því að þetta gerist ekki aftur.

Í dag bíða mín svo brjálaðar gelgjur sem koma til með að borga stórfé fyrir miða á stórtónleika stúlknaflokksins Vælon. Ég skil ekki hvernig ég sogaðist inn í þetta peningaplokk fyrir hann Einar Bárðason, ég tala nú ekki um þar sem að mér finnst þetta stúlknaband hans og þeirra óhljóð hreinlega glæpir gegn mannkyninu. En smekkurinn er nú misjafn sem betur fer og að sjálfsögðu eiga allar sjö ára stelpurnar þarna úti rétt á að skemmta sér eins og aðrir. Ég vildi bara óska þess að ég slyppi við þetta.

Jæja, best að næra sig fyrir óhemjuganginn



Auður Ösp kl.10:12 þann laugardagur, október 23, 2004


#









.Daz Gebbz. .Ázta. .Early. .Áza. .Znóra. .Cliff. .Ziggy.


  • mars 2003
  • apríl 2003
  • maí 2003
  • júní 2003
  • júlí 2003
  • ágúst 2003
  • september 2003
  • október 2003
  • nóvember 2003
  • desember 2003
  • janúar 2004
  • febrúar 2004
  • mars 2004
  • apríl 2004
  • maí 2004
  • júlí 2004
  • október 2004
  • nóvember 2004
  • desember 2004
  • janúar 2005
  • febrúar 2005
  • maí 2005
  • ágúst 2005
  • mars 2007